Eygló fær framkvæmdastjóra

Eva Mjöll Júlíusdóttir hefur verið ráðin til að gegna stöðu framkvæmdastjóra hjá Eygló og mun hefja störf í byrjun næsta árs. Eva Mjöll er með fjölbreyttan bakgrunn og hefur búið víða, nú búsett í Noregi, og segist afar spennt að flytja á Austurland.

Eva er með menntun í stjórnun og vinnusálfræði og öðlaðist víðtæka reynslu í nýsköpunarferlum og samfélagsþróun sem verkefnastjóri/ráðgjafi hjá norska ráðgjafafyrirtækinu Tinkr. Síðustu ár hefur hún unnið sem sérfræðingur á viðskiptasviði í sendiráði Íslands í Osló. Helstu viðfangsefni í starfi hennar þar hefur verið á sviði orku- og loftslagsmála með áherslu á að liðka fyrir orkuskiptum m.a. með tengslamyndun og ýmsum samstarfsverkefnum.

Eva er í grunninn hjúkrunarfræðingur með viðbótarnám í öldrunarfræðum. Hún hefur komið víða við í heilbrigðisgeiranum og bæði starfað við hjúkrun og stjórnun. Þess má geta að hluta af sínu verknámi við Háskólann á Akureyri tók hún fyrir austan á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað.

 

Tekur við í febrúar

Eva er fædd í Svíþjóð en fluttist snemma til Íslands, bjó þá á Akureyri en hefur raunar búið víða, bæði hér og erlendis en hún dvaldi m.a. í ár sem skiptinemi í Japan og talar enn ágæta japönsku. Síðustu þrettán ár hefur hún búið í Noregi.

Eva segist spennt að takast á við ný verkefni og hlakkar til að flytja úr borgarumhverfinu í Osló í friðsældina á Austurlandi. Hún hefur áhuga á ferðalögum, jóga og öllu menningartengdu, hvort sem það er myndlist, leiklist eða annað sem tengist sköpunargleðinni. Hún púslar og leysir þrautir í frítímanum og segist ávallt reyna að skilja heildarmyndina. „Ég er forvitin,“ segir hún, „og ég vil horfa í kringum mig og skilja hvernig hlutirnir púslast saman.“

Eva flytur austur í byrjun næsta árs og tekur formlega við framkvæmdastjórastöðunni hjá Eygló í febrúar.

 

Við bjóðum Evu Mjöll hjartanlega velkomna til starfa hjá Eygló!

 

 

 


Allar fréttir

#