Viltu taka þátt í stærstu frumkvöðlakeppni á Íslandi?
09.01.2024Opið er fyrir skráningar í Gulleggið 2024!
Þetta er stærsta frumkvöðlakeppni á Íslandi og óskað er eftir skráningum, með eða án viðskiptahugmynda. Síðasti dagur til að skrá sig er 19. janúar og fer skráningin fram á vef Gulleggsins.
Fyrir þá sem ekki vita er Gulleggið frumkvöðlakeppni á hugmyndastigi sem haldin hefur verið af KLAK – Icelandic Startups síðan 2008. Keppnin hefur verið stökkpallur fyrir fjölmörg íslensk fyrirtæki t.d. Controlant, Meniga, PayAnalytics, Genki, Taktikal og fjölmörg önnur.
Að þessu sinni hefst keppnin 20. janúar með opnum masterclass í Reykjavík þar sem markmiðið er að þróa hugmynd og búa til kynningu sem gerir keppendum kleift að taka næsta skref. Tíu teymi eru svo valin inn í lokakeppni Gulleggsins sem fram fer í hátíðarsal Grósku.
Lögð er rík áhersla á að þetta sé hugmyndakeppni og mega keppendur ekki hafa tekið inn fjármagn umfram tvær milljónir króna eða byrjað að hafa tekjur af hugmyndinni.
Við hvetjum austfirska frumkvöðla að skrá sig til þátttöku í Gulleggið 2024 og minnum á að ef þú skráir þig Í DAG, 5. janúar, áttu möguleika á að vinna flug til og frá Reykjavík í Masterclass Gulleggsins 20. – 21. janúar!
Við hvetjum sérstaklega þá Austfirðinga sem sóttu um í Uppbyggingarsjóð Austurlands fyrir áramót – óháð því hvort þeir fengu úthlutað styrk eða ekki – að sækja um.
Einnig verður mögulegt að bjóða upp á beint streymi á einni af starfsstöðvum okkar. Við auglýsum hvar og hvenær þegar nær dregur.