Kolefnisspor Austurlands 2022: Skýrslan komin út.
05.02.2025Eygló, í samstarfi við Austurbrú, hefur látið vinna úttekt á kolefnisspori Austurlands. Skýrslan, sem unnin var af Stefáni Gíslasyni og Environice, byggir á losunargögnum fyrir árið 2022 og veitir dýrmæta innsýn í helstu uppsprettur kolefnislosunar á svæðinu. Samskonar skýrslur hafa verið unnar fyrir önnur svæði víðsvegar á landinu og er gagnlegt að rýna í einstaka þætti þar og bera saman við Austurland.
Niðurstöður nýju skýrslunnar voru kynntar á íbúafundi í júní 2024, þar sem fjallað var um þær áskoranir og tækifæri sem tengjast samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda á svæðinu. Á Austurlandi er losunin 113 tonn CO2 ígilda á hvern íbúa á svæðinu, en það er rúmlega þreföld losun samanborið við meðaltalið á landsvísu. Þar telur fámenni fjórðungsins á móti losun frá stóriðju mikið, en losun frá stóriðju og raforkunotkun stóriðju á svæðinu dekkar um 47% heildarlosunar í fjórðungnum. Losun tengd sjávarútvegi vegur einnig þungt í bókhaldinu sem og losun frá framræstu votlendi.
Markmið með gerð skýrslunnar er að skapa grundvöll fyrir markvissar umræður og aðgerðir sem stuðla að sjálfbærni og draga úr umhverfisáhrifum svæðisins. Skýrslan er nú aðgengileg öllum og getur nýst sveitarfélögum, fyrirtækjum og einstaklingum sem vilja leggja sitt af mörkum til loftslagsvænni framtíðar.
Hægt er að nálgast skýrsluna hér:click!